Ferðaþjónustan til móts til nýtt ferðaþjónustuár

Samtök ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn og KPMG héldu þann 14. janúar sína árlegu Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar. Málstofan var haldin í höfuðstöðvum KPMG í Borgartúni 27 og markaði jafnframt upphaf ferðaþjónustuvikunnar 2025.

Fjölmenni var á fundinum, þar sem kynntar voru niðurstöður viðhorfskönnunar sem KPMG framkvæmdi meðal ferðaþjónustufyrirtækja um áramótin. Auk þess var rætt um samkeppnishæfni greinarinnar og áhrif tækni og gervigreindar á framtíð hennar.

Nýskipaður ráðherra ferðamála, Hanna Katrín Friðriksson, ávarpaði gesti í upphafi málstofunnar, en þetta var hennar fyrsta opinbera ávarp til hagaðila innan ferðaþjónustunnar. Í lok málstofunnar var boðið upp á pallborðsumræður með fulltrúum SAF, Íslenska ferðaklasans og KPMG.

Sterk staða en áhyggjur af efnahagsumhverfi og aukinni samkeppni

Sævar Kristinsson, ráðgjafi hjá KPMG, kynnti niðurstöður viðhorfskönnunarinnar, en alls tóku 221 manns þátt í henni úr öllum greinum ferðaþjónustunnar hringinn í kringum landið – met þátttaka.

Helstu niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:

  • Fulltrúar ferðaþjónustunnar hafa áhyggjur af stöðu greinarinnar og framtíðarhorfum.

  • Áhyggjur beinast að efnahagsumhverfinu, vöxtum, verðbólgu og gjöldum á ferðaþjónustu.

  • Fleiri telja að samkeppnisstaða greinarinnar sé að veikjast nú en undanfarin ár.

  • Jarðhræringar og öryggi ferðamanna voru einnig mikilvæg umræðuefni.

  • Áhersla var lögð á stöðuga markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar til að tryggja samkeppnishæfni.

Jákvæð þróun:

  • Skuldastaða greinarinnar er að batna milli ára.

  • Mikil tækifæri eru til staðar með aukinni skilvirkni, betri dreifingu ferðamanna um landið og áframhaldandi einstaka upplifun ferðamanna.

Samkeppnishæfni og áhrif gervigreindar

Hjalti Már Einarsson, framkvæmdastjóri Datera, fjallaði um samkeppnishæfni Íslands á tækniöld og möguleika ferðaþjónustunnar til að nýta gervigreind til aukins árangurs.

Punktar úr erindi Hjalta:

  • Gögn úr leitarvélum sýna hvernig hægt er að spá fyrir eftirspurn með nákvæmum hætti.

  • Áhugi ferðamanna á Íslandi dalaði árin 2022 og 2023 samhliða minni fjármagni í neytendamarkaðssetningu.

  • Gervigreindarlausnir geta aukið skilvirkni og árangur í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja.

  • Fyrirtæki sem ekki tileinka sér gervigreind eiga á hættu að sitja eftir í harðnandi samkeppnisumhverfi.

Hjalti hvatti ferðaþjónustufyrirtæki til að taka þessi mál af festu í nánustu framtíð.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir áréttaði jákvæð tækifæri og mikilvægi samstarfs:

„Þó að könnunin núna sýni minni bjartsýni ferðaþjónustuaðila heldur en fyrri ár, er ástæða til að líta til þeirra miklu tækifæra sem blasa við og ganga í takt til móts við nýtt ár. Áskoranir tengdar náttúruöflum verða erfiðar, en þær sem tengjast bættum rekstri, betri upplýsingum, tækni og aukinni áherslu á sjálfbærni eru innan okkar valdsviðs.“

Hún lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að ný stjórnvöld vinni áfram þétt með greininni til að tryggja framtíðar möguleika hennar til að vera leiðandi.

 
Next
Next

Á grunni sjálfbærni og ábyrgrar ferðaþjónustu í nær 100 ár