Á grunni sjálfbærni og ábyrgrar ferðaþjónustu í nær 100 ár

Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu fór fram fyrir fullum sal í Grósku þann 15. janúar síðastliðinn en viðburðurinn var hluti að Ferðaþjónustuvikunni.
Dagskráin var þétt og metnaðarfull en viðburðurinn hófst á kynningum þeirra þriggja fyrirtækja sem dómnefnd hafði valið sérstaklega úr hópi innsendra tilnefninga og þóttu skara framúr. Það voru aðilar frá Guðmundi Jónassyni ehf, Midgard Adventures og Local Guide of Vatnajökull sem kynntu stuttlega fyrirtækin sín en Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir las síðan upp rökstuðning dómnefndar til handa þeim sem unnu hvatningaverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu fyrir árið 2024.

Verðlaunahafi ársins var fyrirtækið Guðmundur Jónasson ehf, GJ Travel og óskum við þeim innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir áratuga vinnu af fagmennsku og nærgætni í íslenskri ferðaþjónustu. Í umsögn dómnefndar í ár segir að Guðmundur Jónasson ehf - GJ Travel hafi í 94 ár verið leiðandi í ábyrgri ferðaþjónustu með virðingu fyrir íslenskri náttúru að leiðarljósi. Um árabil hafi fyrirtækið lagt áherslu á að lágmarka kolefnisspor, styðja við nærsamfélagið og tryggja öryggi gesta og starfsmanna.

Það er mat dómnefndar að ábyrgir og sjálfbærir rekstrarhættir endurspeglist í öllu sem fyrirtækið tekur sér fyrir hendur og er sjálfbærnin fléttuð inn í starfsmannamenningu fyrirtækisins þar sem starfsfólk fær reglulega þjálfun og kemur að því að móta stefnu fyrirtækisins. Lögð er rík áhersla á öryggismenningu innan fyrirtækisins sem dómnefnd lagði til grundvallar í sínu máli.

Samfélagsleg ábyrgð GJ Travel og hversu öflugt félagið hefur verið í samstarfi við stoðkerfi ferðaþjónustunnar er einnig einstakt og má þar nefna sem dæmi Jöklarannsóknafélag Íslands, Rauða kross Íslands, KSÍ og Landsbjörg.

Hildur Björg Bæringsdóttir viðskiptastjóri Íslandsstofu og Margrét Wendt verkefnastjóri Markaðsstofu Höfuðborgarsvæðisins rýndu í það hvort áfangastaðurinn Ísland og Reykjavík er á réttri leið sem sjálfbær áfangastaður. Framtíðarsýnin er að vera leiðandi í sjálfbærni og ef við ætlum að vera leiðandi þá þarf að vera hægt að mæla það. Einn mælikvarði er GDS index og Reykjavík er númer 17 á GDS index. Helsinki er númer eitt og Jukka Punamaki, forstjóri sjálfbærrar ferðaþjónustu hjá borginni Helsinki kynnti fyrir okkur hvernig Helsinki náði þeim stað.

Að lokum kynnti Hildur leiðir fyrir Reykjavík til að ná enn betri árangri í sjálfbærni og gerði ráð fyrir að við gætum náð fyrsta sætinu á GDS index árið 2029.

Í næstu erindum fór María Rut, verkefnastjóri hjá SAF, yfir stöðu og horfur hjá fyrirtækjum hvað varðar sjálfbærnivottanir og Ingvi Már, skrifstofustjóri viðskipta og ferðamála, kynnti stöðu á aðgerðaráætlun stjórnvalda þegar kemur að þeim 43 aðgerðum sem samþykktar hafa verið á Alþingi og byrjað er að vinna eftir að hluta.

Degi Ábyrgrar ferðaþjónustu lauk síðan með sófaspjalli milli Björgvins Sævarssonar frá Yorth Group og Ásdísar Ólafsdóttur frá Asgard Beyond en Ásta Kristín leiddi spjallið sem fjallaði m.a. um sjálfbærniferðalag Asgard og kortlagningu þeirra í átt að nærandi ferðaþjónustu. Spjallið bar yfirskriftina „Frá pælingum að praktík“ og veittu þau Björgvin og Ásdís góða innsýn í það ferli ásamt því að vera þátttakendum innblástur að því að hefja þetta mikilvæga ferðalag.

Previous
Previous

Ferðaþjónustan til móts til nýtt ferðaþjónustuár

Next
Next

Hvatningaverðlaun fyrir Ábyrga ferðaþjónustu árið 2024