Ratsjáin rýkur af stað með fjölda þátttakenda um allt land

62 fyrirtæki hafa skráð sig til þátttöku í Ratsjánni sem heldur nú af stað í áttunda skiptið, nú með áherslu á sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu. Ratsjáin í ár er unnin með stuðningi frá ráðuneyti ferðamála og sem innleiðing á einni af 43 aðgerðum stjórnvalda sem lið í framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu. 

Fyrirtækin eru af öllum stærðum og gerðum ásamt því að vera vel dreifð um allar landsbyggðir. Fyrirkomulag Ratsjánnar er þannig að haldnar eru fimm vinnustofur, fjórar af þeim á netinu og ein í raunheimum þar sem stjórnendur koma saman á Akureyri í lok verkefnisins og hittast maður á mann. Hver lota eru tvær vikur, í fyrri viku lotunnar fá þátttakendur upptökur og ítarefni ásamt innblæstri frá sérfræðingum hver á sínu sviði, seinni vika lotunnar er síðan vinnustofan þar sem aðilar hittast og rýna í efni lotunnar í sameiningu. Það allra verðmætasta við fyrirkomulag Ratsjárinnar er það mikilvæga jafningjarýni sem þátttakendur fá með því að deila reynslu, hlusta á hvort annað og miðla því sem þau eru sjálf að gera í sínum rekstri. 

Málefni í hverri lotu eru valin af þátttakendum sjálfum en þau gátu forgangsraðað fjölda tillaga að umfjöllunarefnum þegar þau sóttu um þátttöku. Þau yfirþemu sem urðu fyrir valinu í fyrstu Ratsjá ársins 2025 eru: 

  • Grunnur sjálfbærrar ferðaþjónustu

  • Sjálfbærni og leiðtogahæfni

  • Stefnan okkar með sjálfbærni að leiðarljósi, aðgerðir og innleiðing

  • Verkfæri og þróun

  • Framtíðarsýn til lengri tíma

Eftir þessar fræðslulotur munu þátttakendur í Ratsjánni ekki bara vera betur búnir fyrir framtíðina þegar kemur að innleiðingu á sjálfbærni aðgerðum heldur mun betur í stakk búnir til að reka fyrirtækin sín með arðbærari hætti í sátt við samfélag og náttúru.

Framkvæmdaaðilar ásamt samstarfsaðilum og þátttakendum munu móta áherslur á seinni Ratsjá ársins sem fer fram í haust, 2025. Þar er strax farið að ræða mikilvægi nýsköpunar, gervigreindar og vöruþróunar í átt að enn frekari árangri fyrir íslenska ferðaþjónustu. 

Samstarf milli Íslenska ferðaklasans og Háskólans í Reykjavík

Samstarfið Ferðaklasans og HR verður milli nemenda í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og námsáfangans Sjálfbærni og siðferði, sem kenndur verður á vorönn 2025, frá febrúar til apríl og þátttakenda í Ratsjánni á sama tímabili.

Markmið samstarfsins er að veita nemendum innsýn í þá vinnu sem unnin er á vegum Íslenska ferðaklasans, einkum varðandi sjálfbærni og nærandi ferðaþjónustu, ásamt því að veita fyrirtækjum innsýn í aðferðir og hugtök sjálfbærni sem kennd er í Háskólanum í Reykjavík.

Framkvæmd verkefnis

  • Nemendur munu velja sér fyrirtæki í ferðaþjónustu, þar sem allt að fimm nemendur mynda ráðgjafahóp í kringum eitt fyrirtæki. Alls verður leitað til 33 fyrirtækja.

  • Verkefnið felur í sér að taka viðtal við stjórnendur fyrirtækisins og þann aðila sem ber ábyrgð á sjálfbærnimálum. Nemendur munu meta þá vinnu sem fyrirtækið hefur unnið út frá fyrirfram ákveðnu greiningarlíkani og skapalóni, sem þau kynnast í náminu.

  • Afurð verkefnisins verður ráðgjafaskýrsla, allt að 10 blaðsíður að lengd, sem fyrirtækið fær í hendur. Skýrslunni fylgir stutt kynning þar sem helstu niðurstöður verða kynntar.

Ávinningur fyrirtækja og nemenda

Með þessu markvissa samstarfi milli Íslenska ferðaklasans og Háskólans í Reykjavík skapast einstakt tækifæri fyrir nemendur til að læra af atvinnulífinu í beinni tengingu við raunhæf verkefni. Nemendur fá þannig dýpri skilning á sjálfbærni og tækifærum tengdum henni í ferðaþjónustu, á sama tíma og þeir auka faglega þekkingu sína innan háskólasamfélagsins.

Fyrirtækin sem taka þátt í verkefninu fá ekki aðeins ráðgjöf frá nemendum, heldur einnig innsýn í nýjustu aðferðir og hagnýt ráð sem þau geta nýtt á vegferð sinni í átt að aukinni sjálfbærni. Þetta verkefni styrkir þannig tengsl atvinnulífs og menntakerfis og stuðlar að því að Ísland verði skrefi framar hvað varðar sjálfbærni og tækifæri til framtíðar.

Next
Next

The Nordic Regenerative Tourism Conference 2025 Regenerative Tourism – Realism or Wishful Thinking?